Hör – sjóðheitt í sumar

Vinsældir hörsins eru alltaf að aukast að sögn Elínar Rögnu verslunarstjóra Lindex á Glerártorgi.
Vinsældir hörsins eru alltaf að aukast að sögn Elínar Rögnu verslunarstjóra Lindex á Glerártorgi.

Hörflíkur eru í eðli sínu léttar og svalar, enda þéttleiki efnisins mun minni en t.d í bómull. Hörið andar líka vel og hörflíkur eru því hentugur klæðnaður þegar ferðast er á heitari slóðir. Á heildina litið er hörið tímalaust efni með ríka sögu og marga eftirsóknaverða eiginleika á borð við þægindi, náttúrulegan glæsileika og sjálfbærni.

 

Fljótt að þorna

„Hör er óneitanlega partur af vor- og sumartískunni ár eftir ár. Það kemur ekki á óvart þar sem hörið er klæðilegt og eiginleikar efnisins svo frábærir. Hör er mjög umhverfisvænt í ræktun og hentar einstaklega vel á sumrin og í hita því það dregur vel í sig raka en á sama tíma er efnið fljótt að þorna, segir Elín Ragna Valbjörnsdóttir, verslunarstjóri Lindex á Glerártorgi, en bæði Lindex og H&M eru með mikið úrval af hörflíkum í verslunum sínum um þessar mundir. „Í ár er Lindex með fallegt úrval af hörfatnaði. Kjóla, buxur, skyrtur og blazera. Algjörlega tímalausar flíkur sem hægt er að nota ár eftir ár,“ segir Elín Ragna.

 

Hörfatnaður hentar báðum kynjum. Hvíti hörjakkinn er frá H&M en hitt dressið er úr Lindex.  

 

Auknar vinsældir

Aðspurð að því hvort hörið henti öllum aldri eða hvort það sé bara fyrir konur á breytingarskeiðinu, sem margar hverjar hafa tekið öndurareiginleikum efnisins fegins hendi, segir Elín Ragna, að fleiri og fleiri séu að uppgötva kosti efnisins. „Ég myndi segja að hörið hafi ekki sama stimpil núna og áður því konur á öllum aldri eru farnar að klæðast höri. Það hefur orðið svo miklu meira og fjölbreyttara úrval af fatnaði úr höri og ættu allir að geta fundið snið sem hentar þeim. Hörfatnaður kemur alltaf sterkur inn á vorin og sumrin og hefur Lindex ár eftir ár bætt úrvalið sitt af hörfatnaði og við finnum það að þessar flíkur eru einstaklega vinsælar hjá okkur, og vinsældirnar virðast bara aukast.“

 

Hör er náttúrulegt og loftgott efni sem er alltaf vinsælt á sumrin. Þetta græna dress er frá Lindex er úr blöndu af höri og viskos.

 

6 staðreyndir um hör

  1. Hör (Linen/Flax) er náttúrulegt efni sem unnið er úr trefjaríkum stráum hör plöntunnar (Linum usitatissimum).
  2. Hör er ræktað víða um heim þar á meðal í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Stærsta framleiðslan í dag er í Kína.
  3. Hörefni hefur sérstaka áferð sem einkennist af óreglu í efninu. Það getur verið mismunandi þykkt og þungt. Gæðin í efninu fara eftir lengd trefjaþráðanna í plöntunni.
  4. Hörplantan hefur verið nýtt í mörg þúsundir ára bæði í vefnaðarvöru, veggfóður og pappír og þá hafa fræ plöntunnar einnig verið nýtt til inntöku. Egyptar til forna framleiddu til dæmis mikið af höri og egypskir prestar klæddust eingöngu höri þar sem hör var talið tákn um hreinleika.
  5. Hörfatnaður er talinn vera mjög góður fyrir fólk með viðkvæma húð þar sem hann er búinn til úr náttúrulegu hráefni.
  6. Hör þykir eftirsótt í fataframleiðslu þar sem efnið er eitt sjálfbærasta efni í heimi. Hörplantan þarf minna vatn og en t.d. bómull. Þá er hör endurvinnanlegt sem gerir hörfatnað að góðu vali fyrir umhverfismeðvitaða neytendur.