Fjölbreytt sólgleraugnatíska

Guðrún Björnsdóttir, verslunarstjóri hjá Gleraugnasölunni Geisla á Glerártorgi með sín uppáhalds sól…
Guðrún Björnsdóttir, verslunarstjóri hjá Gleraugnasölunni Geisla á Glerártorgi með sín uppáhalds sólgleraugu þessa stundina.

Sólgleraugnatískan er óvenju fjölbreytt í ár og spannar allt frá klassískum tímalausum umgjörðum yfir í djörf gleraugu í yfirstærð sem hylja mikið af andlitinu. Þá eru gleraugu í „vintage art deco“ stíl einnig áberandi.

„Tískan fer alltaf í hringi og það er í raun ótrúlega margt í gangi núna. Klassísk sólgleraugu seljast samt alltaf lang best því þegar fólk kaupir dýr og vönduð sólgleraugu þá vill það að þau endist lengi,“ segir Guðrún Björnsdóttir, verslunarstjóri hjá Gleraugnasölunni Geisla á Glerártorgi. Meðalverð á góðum sólgleraugum hjá Geisla er í kringum 30 þúsund krónur en í versluninni er að finna sólgleraugu frá 4600 þúsund krónum og upp í 50 þúsund. „Góð sólgleraugu endast betur heldur en sólgleraugu sem keypt eru á næstu bensínstöð. Gæðin eru auðvitað allt önnur en einnig er margsannað að fólk hugsar ósjálfrátt betur um vönduð sólgleraugu.“

 

Sólgleraugun frá Victoriu Beckham eru algjör tískuvara. Hún er bæði með stórar og miklar umgjarðir með breiðum örmum en líka nettari og minni gleraugu í anda eitís tískunnar.

 

Gleraugu eru skart

Stærsta og vinsælasta sólgleraugnamerkið hjá Geisla er Ray-Ban en þar er að finna klassískar umgjarðir á borð við Aviator, Erika og Justin sem seljast alltaf vel. „Síðan erum við t.d. með sólgleraugu frá Victoriu Beckham sem eru gríðarlega smart og algjör tískuvara. Hún er bæði með stórar og miklar umgjarðir með breiðum örmum en líka nettari og minni gleraugu í anda eitís tískunnar. Slík eitís gleraugu hafa verið að koma sterk inn, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni,“ segir Guðrún. Sjálf segist hún alltaf fá sér ný sólgleraugu á hverju ári í takt við tískuna og akkúrat núna er hún með tvenn sólgleraugu í gangi frá Marc Jacobs. Annars vegar ílöng sólgleraugu með smá kattaryfirbragði og hins vegar sexkanta gleraugu. ; „Gleraugu eru skart og það að geta sett upp gleraugu eða sólgleraugu setur oft punktinn á heildarútlitið, gleraugu eru bara auka skartgripur.“ Þrátt fyrir að sumarið hafi verið svolítið óútreiknanlegt hvað sólardaga varðar þá hefur samt sem áður verið ágætis sala í sólgleraugum hjá Geisla. Verslunin hefur verið með tilboð í gangi fyrir alla þá sem kaupa gleraugu með sjóngleri en með í kaupunum fylgja frí heillituð sólgler í fjærstyrk. Margir hafa því notað tækifærið og fengið sér sólgleraugu um leið og sjóngleraugun eru uppfærð.

 

Dæmi um sólgleraugu sem eru vinsæl um þessar mundir.

 

Litur í glerjunum

Sólgleraugnaúrvalið er mikið og fjölbreytt í Geisla en auk áðurnefndra merkja þá er t.d hægt að fá þar sólgleraugu frá Paul Smith, Jimmy Choo, Marc Jacobs og A. Kjærbede o.fl. Aðspurð að því hvaða sólgleraugu hafi selst allra best hjá þeim í sumar þá nefnir Guðrún gleraugu í retro stíl með tvíslá sem nefnast Bill og eru frá Ray-Ban. Þau eru djörf endurgerð af klassískum flugmannagleraugum en útkoman verður ýktari þegar þunnri járnumgjörðinni er skipt út fyrir umgjörð úr plasti. „Þá er líka gaman að því hvað það er mikill leikur í glerjunum hjá gleraugnaframleiðendum. Það eru allskonar litir í gangi þar, bláir tónar, bleikir og gulir til dæmis. Ray-Ban kemur alltaf með nýja liti í glerin hjá sér. Það eru t.d. til um 60 litasamsetningar af flugmannagleraugunum, t.d. brún gradal en með mismunandi lit af spöng og svo framvegis. Þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“

 

Bill gleraugun frá Ray-Ban eru djörf endurgerð af hinum klassísku flugmannagleraugum. Gleraugun hafa verið afar vinsæl í sumar.