Guðmundur Geir Hannesson og Egill Anfinnsson Heinesen eru æskuvinir úr Glerárhverfi sem hafa ólíkan bakgrunn, bæði hvað varðar starfsreynslu og íþróttaáhuga. Guðmundur er Þórsari í húð og hár á meðan Egill er KA-maður, en saman hafa þeir sameinað krafta sína á Retro chicken, nýjum kjúklingastað á Akureyri með nostalgískum blæ.
Þeir tveir sjá um daglegan rekstur á veitingastaðnum, en alls eru eigendurnir fjórir. Hinir tveir eru þeir Marteinn Kelley og Ingólfur Þorsteinsson, báðir Akureyringar sem nú eru búsettir í Reykjavík.
Tók sér frí frá veitingageiranum
Guðmundur ber hitann og þungann í eldhúsinu á meðan Egill sinnir flestu öðru og segja þeir að samvinnan gangi vel, þó þeir séu mjög ólíkir félagarnir. Guðmundur hefur áralanga reynslu í veitingabransanum og hefur starfað á fjölmörgum virtum veitingastöðum, bæði á Íslandi og erlendis. Hann hóf sinn matreiðsluferil við Hótel Húsavík og hefur síðan þá starfað á stöðum eins og Sjávarkjallaranum, Thorvaldssen Bar og í Ráðstefnuhúsinu í Stavanger í Noregi, svo fátt eitt sé nefnt. „Ég tók mér smá pásu frá eldhúsinu í nokkur ár en matreiðslan togaði alltaf aftur í mig – og svo þegar strákarnir höfðu samband við mig þá var ég meira en til að snúa mér aftur að matreiðslunni,“ segir Guðmundur.
Gæða kjúklingaréttir með nostalgískum blæ
Hugmyndin að Retro Chicken kviknaði meðal annars út frá minningum um gamla Crown Chicken staðinn á Akureyri sem þeir félagar héldu mikið upp á þegar þeir voru að alast upp og sjá enn í dýrðarljóma. „Við vorum með hugmynd um að koma með stað sem hefði þetta skemmtilega retro yfirbragð en samt með okkar eigin útfærslu á góðum kjúklingaréttum,“ útskýra þeir. Segja þeir að á staðnum sé lögð áhersla á góða matargerð með nostalgískum og amerískum blæ. Sérstaðan felst í því að bjóða upp á gæða kjúklingarétti sem eru hvorki of óhollir né of hollir, heldur sé meira jafnvægi þar á milli. „Við viljum gera mat sem fólk getur borðað og notið, án þess að það sé annaðhvort allt djúpsteikt eða algjört heilsufæði,“ segja þeir. Einn vinsælasti réttur staðarins er kjúklingaborgarinn, en þar er notast við kjúklingalæri í staðinn fyrir hefðbundna djúpsteikta bita. Auk þess eru þeir með klassíska stökka kjúklingabita, sem hafa fengið mikið lof frá viðskiptavinum. „Við tókum okkur góðan tíma í að þróa okkar eigin kryddblöndu á þá og höfum fengið mjög góð viðbrögð við þeim,“ segir Guðmundur.
Verðlagið viðráðanlegt
Talið berst að verðlagningunni en þeir ítreka að á Retro Chicken sé boðið upp á gæðamat á viðráðanlegu verði sem geri fjölskyldum kleift að njóta saman án þess að það kosti formúu. „Við viljum að fjölskyldur geti komið hingað og borðað saman án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði,“ segja þeir. Þeir taka sem dæmi að barnamáltíð með kjúklinganöggum, frönskum og safa kosti 1.490 kr., á meðan klassískur kjúklingaborgari með frönskum kostar um 2.890 kr. Fimm manna fjölskylda(miðað við foreldra, ungling og tvö börn eða foreldra og þrjú börn) getur því borðað saman fyrir um 11-12 þúsund krónur, sem þeir segja að sé mun hagstæðara en víða annars staðar.
Mikið að gera þegar ferðafólk er í bænum
Mathöllin á Glerártorgi opnaði rétt fyrir jól og segja þeir félagar að fólk hafi tekið Retro Chicken opnum örmum, og var desembermánuður sérstaklega öflugur. „Það var alveg bilað að gera í kringum jólin – við fengum smjörþefinn af því hvernig þetta getur verið,“ segir Guðmundur og bætir við að hann hafi líklega verið sá eini á Íslandi sem missti kíló fyrir jólin, þar sem hann var á þvílíkum hlaupum þessa fyrstu daga.