Undir bleikhimni
Veggverk í tilefni af bleikum október á Glerártorgi
Í tilefni af bleikum október 2024 prýðir nýtt og stórbrotið veggverk Glerártorg á Akureyri. Verkið, sem ber nafnið „Undir bleikhimni“, er unnið af listakonunni Karólínu Baldvinsdóttur í samstarfi við unga blómálfa úr bænum. Veggverkið var framkvæmt þann 3. október á upphafi Dekurdaga og er hluti af vitundarvakningu um krabbamein kvenna.
Hugmyndin að verkinu byggir á náttúrulegum fyrirbærum – skýjamyndunum sem kallast Mammatus ský. Öfugt við flest ský, sem myndast þegar loft rís upp, þá verða Mammatus skýin til við það að loft sígur niður, og skapa þau þannig einstakt útlit. Skýin líta út eins og skálar sem hanga undir skýjunum, oft með ógnvekjandi yfirbragði og gefa til kynna að mögulega sé stormur í nánd. Mammatus skýin, sem veittu Karólínu innblástur, eru samsett úr vatnsgufu og ískristöllum, rétt eins og önnur ský, og geta teygt sig yfir hundruð kílómetra. Latneska heiti skýjanna, Mammatus, á rætur sínar í orðinu "Mamma," sem merkir brjóst, og vísa skýjamyndirnar því óneitanlega til þess og mynda þannig tengingu við baráttuna við krabbamein í brjóstum.
Karólína Baldvinsdóttir hefur skapað listaverk sem sameinar fegurð náttúrunnar og táknræna merkingu bleika litarins, sem í október stendur fyrir von, styrk og stuðning við konur sem berjast við krabbamein. Veggverkið er því ekki aðeins sjónræn upplifun, heldur einnig boðskapur um samstöðu og vitundarvakningu. Hún er hjúkrunarfræðingur, mamma og myndlistarkona, útskrifuð úr Myndlistarskólanum á Akureyri árið 2014. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Hún var formaður Myndlistarfélagsins á Akureyri 2018-2022 og starfar sem framhaldsskólakennari í list- og skapandi greinum í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Karólína er meðlimur í listahópnum Kaktus á Akureyri og var einnig einn af stjórnendum og stofnendum listaverkefnisins RóT, sem starfrækt var á Akureyri frá 2014 til 2020 með hléum. Hún situr nú í stjórn Gilfélagsins og stofnaði og stendur fyrir Samlaginu - sköpunarverkstæði sem býður upp á listanámskeið fyrir börn og unglinga. Karólína tjáir list sína fyrst og fremst með málverki en lætur þó hugmyndina ávallt stjórna efniviðnum.
Undir bleikhimni býður gestum Glerártorgs að staldra við og hugsa um þá sem hafa orðið fyrir barðinu á krabbameini og mikilvægi þess að auka vitund um sjúkdóminn. Þetta verk er einstök blanda af náttúru, list og samfélagsvitund sem færir skilaboð bleiks október nær fólkinu á Akureyri.
Verkið mun standa út október mánuð og hvetjum við alla að staldra við og skoða verkið